Þær stelpur sem sem byrjuðu leikinn í gær teygðu aðallega á og liðkuðu sig á æfingasvæðinu í morgun og tók landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson líka þátt í teygjunum.
Á meðan nýtti Heimir Hallgrímsson tækifærið og fór yfir varnarleik í föstum leikatriðum með þeim stelpum sem voru á varamannabekknum í gær. Þar minnti hann á mikilvægi þess að finna fyrir leikmanninum sem verið væri að dekka þannig að hægt væri að fylgjast með boltanum og leikmanni á sama tíma. Stelpurnar höfðu gaman af æfingum Heimis en liðið þurfti að verjast stóran hluta leiksins gegn Frökkum í gær og gerði vel.
Næsti leikur Íslands er gegn Sviss á laugardaginn en Svisslendingar eru í sárum eftir 1-0 tap gegn Austurríki í gær. Sviss hefur unnið síðustu þrjá leikina gegn Íslandi afar sannfærandi og ljóst að um afar erfiðan leik verður að ræða fyrir okkar konur. Þær sýndu það þó í gær að þær eru til alls líklegar.
Svipmyndir frá æfingunni má sjá hér að neðan.