Tæknilega séð ríkir enn stríðsástand á Kóreuskaganum eftir að samið var um vopnahlé árið 1953.
Moon kom til valda í maí og hefur hann heitið því að koma af stað viðræðum á milli ríkjanna og í senn stöðva kjarnorkuvopna- og eldflaugatilraunir Norður-Kóreu.
Yfirvöld Norður-Kóreu segja að tilraunaskot með langdræga eldflaug í byrjun mánaðarins hafi heppnast og að þeir hafi náð tökum á tækninni til að koma kjarnorkuvopnum fyrir á slíkum eldflaugum. Yfirvöld í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum draga það þó í efa.
Lagt er til að viðræðurnar fari fram þann 21. júlí í Panmunjom friðarþorpinu. Síðustu viðræður sem haldnar voru þar fóru fram í desember 2015.
Sameiningaráðherra Suður-Kóreu, Cho Myoung-gyon sagði frá tilboðinu á blaðamannafundi í dag. Hann kallaði einnig eftir því að sérstakar símalínur á milli stjórnvalda og hernaðaryfirvalda ríkjanna beggja verðu virkjaðar aftur. Norður-Kórea lokaði á þær í fyrra eftir að Suður-Kórea beitti þá þvingunum vegna sprengingar kjarnorkuvopns.
Sömuleiðis lagði Suður-Kórea til viðræður um að fjölskyldum, sem sundruðust í Kóreustríðinu, verði gert kleyft að koma saman aftur.