„Stjörnustríð VIII: Síðasti jedi-inn“ verður frumsýnd í desember Þar mun Mark Hamill endurtaka hlutverk sitt sem Logi geimgengill en honum brá takmarkað fyrir í sjöundu myndinni sem kom út árið 2015. Þá fer Carrie Fisher með hlutverk Lilju prinsessu í myndinni en hún lést í desember.
„Rian [Johnson leikstjóri] hefur skrifað sögu sem er óvænt en rétt. Fólk á eftir að segja „guð minn góður“ yfir sumu því sem gerist,“ segir Daisy Ridley sem fer með hlutverk nýju aðalsöguhetjunnar Rey.

Í sama streng tekur Hamill sjálfur.
„Jafnvel þó að ég telji mig vita allt þá henda þeir hlutum inn í söguna sem ég hefði aldrei getað ímyndað mér,“ segir hann.
Athygli vakti þegar Hamill lýsti óánægju sinni með handrit nýju myndarinnar fyrr á þessu ári. Sagðist hann í grundvallaratriðum ósammála nánast öllu sem Johnson hefði ákveðið um persónu Loga í nýju myndinni.
„Það gæti samt verið góðs viti!“ sagði Hamill þó og vísaði til þess að hann hefði haft kolrangt fyrir sér um viðbrögð áhorfenda við sjöundu mynd sagnabálksins.
Í myndbandinu hér fyrir neðan er skyggnst á bak við tjöldin í Stjörnustríði VIII.