Íslensku stelpurnar fögnuðu EM-sætinu með því að vinna sinn sjöunda sigur í röð sem kom á móti Slóveníu 17. september en lokaleikurinn var við Skota aðeins þremur dögum síðar. Þegar lagt var í hann í upphafi undankeppninnar stefndi alltaf í hreinan úrslitaleik við Skota í lokaleiknum en þegar 20. september 2016 rann upp þá skipti sá leikur litlu máli.
Íslenska liðið hafði þó bæði þá gulrót að landa fullkomni undankeppni og vinna riðilinn. Annað markmiðið náðist en 2-1 tap þýddi að liðið tapaði sínum fyrstu stigum og fékk á sig fyrstu mörkin.
Markatala íslenska liðsins fyrir lokaleikinn var 33-0 og liðið var búið að halda hreinu í 655 mínútur þegar Skotar komust í 1-0 í Laugardalnum.
Árangur íslensku stelpnanna á útivelli var afar athyglisverður en íslenska liðið vann alla fjóra útileikina og það með markatölunni 19-0. Meðal þeirra var 4-0 sigur á Skotum í júní 2016 en með þeim sigri lagði íslenska liðið grunninn að sigri í riðlinum. 6-0 sigurinn úti í Slóveníu í síðasta leiknum haustið 2015 kom íslenska liðinu líka í mjög góða stöðu og gaf um leið skýr skilaboð um að íslensku stelpurnar væru til alls líklegar. Þessir tveir útileikir voru líklega bestu leikir íslenska liðsins í undankeppninni, tveir sannfærandi útisigrar á liðunum sem enduðu í 2. og 3. sæti riðilsins.

Íslensku stelpurnar voru meðal efstu liða bæði hvað varðar sóknarleik og varnarleik. Aðeins tvö lið skoruðu fleiri mörk en íslenska liðið í undankeppninni, Spánn (39) og Þýskaland (35), og bara Frakkland (0 mörk á sig), Þýskaland (0), Danmörk (1) og England (1) fengu á sig færri mörk.
Þessi grein birtist fyrst í sérstöku EM-blaði sem fylgdi Fréttablaðinu laugardaginn 15. júlí.