Innlent

Þyrlan kölluð til vegna strandaglóps sem fór í Skaftá

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Maðurinn er kominn um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Maðurinn er kominn um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Björgunarsveitin
Björgunarsveitir á Suðurlandi og þyrla Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út í kvöld til aðstoðar tíu manna hópi franskra skáta um tvítugt sem voru að vaða í Skaftá. Skátarnir voru strandaglópar í tveimur hólmum í Skaftá norðan Búlands.

Björgunarsveitir náðu til níu skátanna en þyrlan var kölluð til vegna þess tíunda. Sá hafði orðið viðskila við hópinn og í sjálfheldu í öðrum hólma. Björgunarsveitarmenn náðu sambandi við manninn í hólmanum en treystu sé ekki út í hólmann á þeim tækjabúnaði sem þeir höfðu yfir að ráða enda áin mjög straumhörð.

Maðurinn beið í rúmar tvær klukkustundir kaldur og blautur.Björgunarsveitin
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að skátinn hafi verið blautur, kaldur og í sjálfheldu. Rúmlega tveir tímar liðu frá því útkallið barst og þangað til þyrlan kom á staðinn.

Maðurinn sem var í sjálfheldu var fluttur á brott með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Hinir skátarnir níu voru ferjaðir með bílum björgunarsveita á þurrt og eru á leið í fjöldahjálparstöð á Kirkjubæjarklaustri.



Jón Hermannsson, svæðisstjórnarmaður segir að björgunaraðgerðin hafi gengið vel. Allir séu heilir á húfi en bætir við þetta verkefni hafi tekið á „bæði á taugar og líkama.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×