Fjögur lið úr Olís-deild karla í handbolta taka þátt í Evrópukeppni næsta vetur.
Íslands- og bikarmeistarar Vals taka þátt í EHF-bikarnum sem og deildarmeistarar FH og Afturelding. Valur er í efri styrkleikaflokki en FH og Afturelding í neðri styrkleikaflokki.
ÍBV tekur þátt í Áskorendabikar Evrópu. Eyjamenn hefja leik í 3. umferð og verða í efri styrkleikaflokki.
Valsmenn tóku þátt í Áskorendabikarnum á síðasta tímabili og komust alla leið í undanúrslit þar sem þeir féllu á umdeildan hátt út fyrir Potaissa Turda frá Rúmeníu.
Dregið verður í Evrópukeppnunum 18. júlí í Vín.
