Fótbolti

Einkunnir íslensku stelpnanna: Okkar stelpur nokkrum skrefum á eftir í kvöld

Íþróttadeild 365 skrifar
Fanndís Friðriksdóttir í leiknum í kvöld.
Fanndís Friðriksdóttir í leiknum í kvöld. Vísir/Getty
Íslenska kvennalandsliðið tapaði í kvöld þriðja leiknum sínum í röð á Evrópumótinu í Hollandi og koma því stigalausar heim af EM 2017. Ísland tapaði 3-0 á móti Austurríki í lokaleiknum í Rotterdam en hafði áður tapað á móti Frakklandi og Sviss.

Austurríska liðið var í stórsókn frá fyrstu mínútu leiksins en þær austurrísku skoruðu þó ekki mörkin sín í fyrri hálfleik fyrr en að íslensku stelpurnar voru aðeins farnar að bíta frá sér í sókninni.

Austurríki fékk fyrra markið á silfurfati frá Guðbjörgu markverði og var síðan komið í 2-0 aðeins átta mínútum síðar. Bæði mörkin voru af ódýrari gerðinni þar sem íslensku stelpurnar voru að tapa baráttunni eftir fyrirgjafir inn í teig.

Þetta var annars erfitt kvöld fyrir okkar stelpur sem áttu oft í miklum erfiðleikum á móti spútnikliði íslensk riðilsins.  Austurríska liðið bætti síðan við einu marki í seinni hálfleik og vann sannfærandi sigur.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig íslensku stelpurnar stóðu sig í leiknum í kvöld að mati íþróttadeildar Vísis og Fréttablaðsins.

Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður  4

Eftir að vera öryggið upp málað allt mótið og framan af leik í kvöld gerði Gugga sig seka um skelfileg mistök sem leiddu til fyrsta marksins. Leit ekkert frábærlega út í öðru markinu. Varði mikið af skotum en sat uppi með að fá á sig þrjú mörk.

Glódís Perla Viggósdóttir, miðvörður 4

Sæmilegur leikur hjá Glódísi en skiptingarnar yfir á vinstri vænginn fóru of oft á leikmenn austurríkis sem bjó til skyndisóknir á íslenska liðið.

Sif Atladóttir, miðvörður 5

Var í leikmanninum sem skoraði fyrra markið en reiknaði auðvitað með að Gugga myndi halda boltanum Tæklaði og barðist og átti fín innköst. Átti nokkrar lykiltæklingar enda var mikið að gera hjá varnarmönnunum.

Anna Björk Kristjánsdóttir, miðvörður 4

Varðist í heildina ágætlega en átti í miklu basli með að koma boltanum frá sér. Virkaði nokkuð óörugg eftir að koma inn í liðið fyrir leikinn.

Hólmfríður Magnúsdóttir, hægri vængbakvörður 4

Átti nokkra fína spretti í stöðu sem hún hefur aldrei spilað áður en átti erfitt uppdráttar í varnarleiknum og bauð ekki upp á það fram á við sem þjálfarinn bjóst vafalítið við með því að setja sóknarmann í þessa stöðu.

Sara Björk Gunnarsdóttir, miðjumaður 4

Var úti um allt en alltof sjaldan á réttum stað. Átti einn fallegan snúning í fyrri hálfleik en kom annars lítið við sögu í leiknum nema að hlaupa á sig gat að vanda.

Dagný Brynjarsdóttir, miðjumaður 4

Sést alltof lítið til hennar á miðjunni. Var í eltingaleik við austurrísku miðjumennina, vann ekki nógu marga bolta og átti í vandræðum með að skila boltanum frá sér.

Hallbera Guðný Gísladóttir, vinstri vængbakvörður 3

Enn einn erfiður dagurinn á skrifstofunni hjá Hallberu á þessu móti. Gullfóturinn skilaði litlu í þessum leik og toppaði sig með aukaspyrnu úr góðri stöðu beint í varnarvegginn.

Agla María Albertsdóttir, hægri kantmaður 3

Virkaði of lítil í þetta verkefni en reyndi hvað hún gat að taka þau hlaup sem hún átti að taka. Hún hljóp og barðist en var næstum ekkert í boltanum, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem hún sást ekki.

Fanndís Friðriksdóttir, vinstri kantmaður 5

Enn eina ferðina mest viljug í íslenska liðinu til að sækja á markið. Átti nokkur fín skot, þar af eitt eftir glæsilegt einstaklingsframtak, en var ekki nógu mikið í boltanum.

Harpa Þorsteinsdóttir, framherji 4

Þrátt fyrir að vera ekki í sínu besta formi sýndi Harpa hversu mikið hefur munað um hana þegar kemur að uppspili liðsins. Gerði vel í að halda boltanum og hjálpa að færa liðið framar en var langt því frá nægilega ógnandi sem fremsti maður.

Varamenn:

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir - (Kom inn á fyrir Hólmfríði á 51. mínútu) 4

Sem fyrr barðist þessi mikli nagli eins og ljón en þessi staða virðist ekki vera fyrir hana. Sérstaklega ekki þegar kemur að sóknarleiknum. Skrítið að taka út Hólmfríði fyrir hana þegar það þurfti að skora.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir - (Kom inn á fyrir Hörpu Þorsteinsdóttur á 71. mínútu) Lék ekki nógu lengi

Sandra María Jessen - (Kom inn á fyrir Öglu Maríu Albertsdóttur á 83. mínútu) Lék ekki nógu lengi








Fleiri fréttir

Sjá meira


×