Freyr sat fyrir svörum á blaðamannafundi þjálfarateymisins á æfingasvæði Íslands í dag og var þar meðal annars spurður út í framtíðina með liðið og hvernig hægt sér að styrkja umgjörðina.
Ekki er keppt í U21 árs landsliðum hjá konum þannig þær fara beint úr U19 ára landsliði í A-landslið. Lengi hefur verið kallað eftir því að vera með U23 ára landslið til að brúa bilið fyrir efnilega leikmenn áður en þeir komast í A-landsliðið.
„Ég get ekki barist meira fyrir þessu. Ég er búinn að leggja mikla áherslu á þetta en mér finnst ég standa einn í storminum. Þetta snýst á endanum um íslenskan fótbolta. Ég er bara landsliðsþjálfari,“ sagði Freyr.
„Ef við viljum ná lengra sem fótboltaþjóð þurfa félögin að styðja þessa tillögu og stjórn KSÍ að taka ákvörðun. Þetta þarf væntanlega að fara í gegnum ársþing.“
„Ég er búin að lýsa yfir vilja mínum alltof oft og Sigurður Ragnar Eyjólfsson gerði það líka. Ég veit að við þurfum á þessu að halda til að brúa bilið og hjálpa leikmönnum að þroskast. Ég get samt ekki verið í baráttu um þetta einn,“ sagði Freyr en hvað er það sem stendur í vegi fyrir þessu?
„Þetta kostar peninga og þeim ræð ég ekki yfir,“ sagði Freyr Alexandersson.
Upptöku frá fundinum má sjá hér að neðan.