Íslenski boltinn

Stærsta tap ÍA frá upphafi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Garðar Gunnlaugsson.
Garðar Gunnlaugsson. Vísir/Ernir
ÍA, eitt sigursælasta lið íslenskrar knattspyrnusögu, hafði aldrei tapað deildarleik með meira en fimm marka mun fyrr en í gærkvöldi. Valsmenn unnu þá 6-0 sigur á botnliði Skagamanna.

Topplið Vals fór á kostum í leiknum og lék Skagamenn grátt á löngum köflum. Eftir tapið í gær er ÍA í neðsta sæti Pepsi-deildar karla með níu stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.

Fyrir leikinn í gær hafði ÍA mest tapað með fimm marka mun í deildarleik en það hafði gerst þrisvar í sögu félagsins. Tapið í gær er því það stærsta í sögu ÍA, sem var stofnað árið 1946 og hefur átján sinnum orðið Íslandsmeistari.

„Nei, ég held áfram svo lengi sem stjórnin treystir mér,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, eftir leik í gær aðspurður um það hvort hann sé farinn að óttast stöðu sína sem þjálfari ÍA. „Stjórnin þarf að spá í málin eftir svona slæma útreið, en það eru punktar í fyrri hálfleik sem við getum nýtt í næsta leik.“

Hér fyrir neðan má sjá stærstu deildartöp ÍA þar til í gær en heimildin er fengin úr Íslenskri knattspyrnu eftir Víði Sigurðsson.

2-7 gegn ÍBA, A-deild 1966

2-7 gegn FH, A-deild 2012

0-5 gegn Víkingi Ó, A-deild 2013




Fleiri fréttir

Sjá meira


×