FH mætir portúgalska liðinu Braga í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Dregið var í umspilið í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss í morgun.
Auk Braga átti FH möguleika á að mæta Athletic Bilbao, Everton, Salzburg og Midtjylland.
Fyrri leikurinn fer fram hér á landi 17. ágúst. Viku síðar mætast liðin svo á Estádio Municipal de Braga, heimavelli Braga sem endaði í 5. sæti portúgölsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.
Everton mætir Hadjuk Spilt frá Króatíu og AC Milan mætir Shkëndija frá Makedóníu.
Matthías Vilhjálmsson og félagar í Rosenborg mæta Ajax, silfurliði Evrópudeildarinnar á síðasta tímabili.
Viðar Örn Kjartansson og félagar hans í Maccabi Tel-Aviv etja kappi við Altach frá Austurríki.
AEK, sem Arnór Ingvi Traustason leikur með, mætir Club Brügge frá Belgíu.
Dráttinn í heild sinni má sjá með því að smella hér.
FH-ingar fara til Portúgals í umspilinu
