Sport

Aðeins auðveldara fyrir Usain Bolt á HM í frjálsum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Usain Bolt og Andre de Grasse.
Usain Bolt og Andre de Grasse. Vísir/Getty
Usain Bolt ætlar sér að enda ferillinn með því að vinna enn einn heimsmeistaratitilinn í 100 metra hlaupi á HM í frjálsum í London sem hefst á morgun.

Verkefnið var aðeins auðveldara eftir að kanadíski spretthlauparinn Andre de Grasse forfallaðist en Andre er meiddur og getur ekki tekið þátt í heimsmeistaramótinu.

Andre de Grasse varð í öðru sæti á eftir Usain Bolt í 200 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Ríó síðasta haust og vann einnig brons í 100 metra hlaupinu.

De Grasse er að glíma við tognun aftan í læri og þarf að sætta sig við að missa af heimsmeistaramótinu.  Hann hljóp 100 metrana á 9,69 sekúndum í júní en þá var of mikill meðvindur.

„Meiðsli eru hluti af íþróttum en tímasetningin á þessum er einstaklega óheppileg. Allt þetta ár var ég með augun á 100 metra hlaupinu í London. Ég er í besta forminu sem ég hef verið í á ævinni og hlakkaði til að keppa við þá bestu í heimi,“ sagði Andre de Grasse í viðali við BBC.

Andre de Grasse er 22 ára gamall en Usain Bolt er þrítugur. Vinni Bolt 100 metra hlaupið á laugardagskvöldið þá verður hann heimsmeistari í fjórða sinn í greininni en hann vann hana líka í Berlín 2009, í Moskvu 2013 og í Peking 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×