Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Ríkisútvarpið til að greiða Adolf Inga 2,2 milljónir í bætur og málskostnað að auki í júlí síðastliðnum.
„Ríkisútvarpið er ekki sammála forsendum dómsins og því er talið rétt að áfrýja honum til Hæstaréttar,“ segir Margrét Magnúsdóttir, skrifstofustjóri RÚV í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis um hvers vegna málinu er áfrýjað.
Adolf Inga var sagt upp störfum hjá Ríkisútvarpinu árið 2013 og hóf þá að undirbúa málsókn á hendur stofnuninni vegna eineltis sem hann taldi sig hafa mátt sæta.
„Það er hundleiðinlegt náttúrulega að það skuli teygjast á þessu enn þá meira. þetta er búið að standa nógu lengi og ríflega það,“ segir Adolf Ingi í samtali við Vísi.
Uppsögnin ólögmæt
Adolf hefur sagt að fljótlega eftir að Kristín H. Hálfdánardóttir tók við stöðu íþróttastjóra deildarinnar, um 2010, hafi mjög verið að honum þrengt. Verkefnum hans fór að fækka og hann fékk ekki að lýsa leikjum.
Hins vegar er fallist á það að það hafi falið í sér einelti af hálfu Kristínar að fella niður vaktaálagsgreiðslur til hans, þvert á munnlegt samkomulag þeirra á milli um að hann skyldi halda þeim kjörum þrátt fyrir að hann tæki að sér önnur verkefni innan RÚV.
Þá komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að uppsögn Adolfs Inga hafi verið ólögmæt þar sem RÚV hafi ekki sýnt fram á að málefnalegar ástæður hafi legið að baki því að segja honum upp.
Komi ekki á óvart
Adolf segir ákvörðun RÚV um að áfrýja dómnum ekki koma á óvart.„Það er þeirra réttur að áfrýja ef þeir vilja og kemur mér kannski ekkert svo á óvart í ljósi þess að uppsögnin var dæmd ólögmæt. Það kemur mér ekkert á óvart að þeir vilji fá það staðfest eða fá því hnekkt af Hæstarétti því það er mjög fordæmisgefandi í þessum dómi. Í rauninni er það svolítið stórt mál varðandi vinnulöggjöf hvort að uppsögnin geti talist ólögmæt eða ekki. Að sjálfsögðu vona ég að hæstiréttur staðfesti það, en hvað varðar eineltið og svoleiðis þá held ég að það liggi nokkuð ljóst fyrir, ég á ekki von á að hæstiréttur breyti neinu hvað það snertir,“ segir Adolf.
„Auðvitað eru það svolítil vonbrigði að þau skyldu áfrýja þessu, ég hefði kostið að þessu yrði bara lokið. En eins og ég segi þá er þetta bara þeirra réttur og þeirra ákvörðun.“