Sýrlandsstjórn bar ábyrgð á eiturefnaárásinni í sýrlenska bænum Khan Sheikhun í Idlib-héraði í apríl síðastliðinn. Þetta er niðurstaða rannsóknar Sameinuðu þjóðanna sem kynnt var í dag.
Að minnsta kosti 87 manns létu lífið í árásinni, þar af 31 barn, þar sem saríngasi var beitt.
„Sveitir stjórnarhersins hafa haldið áfram notkun efnavopna gegn óbreyttum borgurum á svæðum undir stjórn stjórnarandstæðinga. Í versta tilfellinu beitti sýrlenski flugherinn saríngasi í Khan Sheikhun, þar sem tugir drápust, að stærstum hluta konur og börn,“ segir í skýrslunni.
Bandaríkjastjórn og bandamenn þeirra sökuðu fljótlega eftir árásina Bashar al-Assad Sýrlandsforseta og stjórn hans um að bera ábyrgð á henni. Assad hafnaði því að Sýrlandsher bæri ábyrgð og sagði hann sýrlenska herinn hafa skilað frá sér öllum efnavopnum árið 2013 og að hann myndi aldrei beita slíkum vopnum.
Rannsakendur Sameinuðu þjóðanna segjast nú vera með óyggjandi sannanir fyrir því að sýrlenski flugherinn hafi raunverulega borið ábyrgð á árásinni sem flokkast sem stríðsglæpur.
