„Við ákváðum að taka ekki auðveldu leiðina og sætta okkur við svona vinnubrögð sem okkur þykja óásættanleg. Þetta er prinsippmál fyrir okkur – prinsipp í mannréttindum eru mikilvægari en bara einhverjir stólar eða völd.“ Þetta sagði Óttarr Proppé í samtali við Heimi Má Pétursson í Víglínunni í dag.
Óttarr svaraði gagnrýni sjálfstæðismanna, þess efnis að framganga Bjartrar framtíðar hefði einkennst af heigulshætti, fullum hálsi. „Nei, þvert á móti. Ég tel einmitt að við höfum þorað þegar þurfti.“
Að sögn Óttars var flokkurinn sleginn vegna upplýsinganna sem komu fram í dagsljósið á fimmtudaginn og raunar umræðunni sem hefur verið í deiglunni í allt sumar. „Við fórum inn í erfitt samstarf en ákváðum að axla ábyrgð með því að fara inn í ríkisstjórn með svo tæpan meirihluta. Við þurftum að miðla mörgum málum og lögðum þetta upp með miklu trausti,“ sagði Óttarr.
Hann bætti þó við að stjórnarsamstarfið hafi gengið vel að mörgu leyti. „Okkur tókst að draga Sjálfstæðisflokkinn inn á miðjuna hvað varðar bæði efnahagsmál og græn mál, þ.e. umhverfismál.“
Eitraður kúltúr í Sjálfstæðisflokknum
Talið berst að menningu innan stjórnmálaflokka. Óttarr nefnir að valdastrúktúrinn innan Sjálfstæðisflokksins sé ekki í takt við tímann.
„Það er einhver strúktur í þessum flokki sem byggir á því að leiðtoginn ræður öllu og allt stjórnast af hans hagsmunum, svo dansa allir eftir því. Það er ekki andi nútímans að það sé bara „pabbi“ sem ráði öllu,“ sagði hann.
Aðrir viðmælendur þáttarins, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Logi Már Einarsson, tóku undir sjónarmið Óttars og viðruðu sjónarmið sín þess efnis að tímabært væri að koma Sjálfstæðisflokki frá völdum. „Sjálfstæðisflokkurinn þarf tíma til þess að setjast niður og hugsa sinn gang og endurskoða þennan kúltúr,“ fullyrti Logi Már.
„Það eru margir góðir einstaklingar í Sjálfstæðisflokknum en kúltúrinn er eitraður,“ svaraði Óttarr.
