Björgólfur var til svars í nýjum viðtalsþætti Íslandsbanka sem var birtur á Facebook-síðu bankans í dag.
Michael O’Leary, forstjóri Ryan Air, sagði í viðtali við The Scotsman á dögunum að eftir fimm ár yrðu líklega bara fimm risar sem sinntu flugþjónustu í Evrópu. Nefndi hann Ryanair, British Airways, Lufthansa, Air France - KLM og mögulega EasyJet. Ástæðan væri sú mikla pressa að bjóða upp á lág verð.
„Það getur vel verið að þetta þróist út í fimm stóra spilara á markaðnum en ég hef ekki trú á því að það verði raunin,“ sagði Björgólfur.
Rétt byrjaður þegar hrunið skall á
O’Leary hefur haft orð á því að flugfargjöld verði engin í framtíðinni. Eitthvað sem Skúli Mogensen, forstjóri WOW Air, hefur sömuleiðis minnst á í viðtölum.
„Forstjóri Ryan Air hefur sagt að fluggjöldin yrðu frí í framtíðinni. Það hafa reyndar fleiri talað um það. Ég hef svo sem ekki fundið neitt á minni stuttu ævi sem er frítt í þessum heimi. Á einhverju þurfa viðkomandi aðilar að lifa,“ segir Björgólfur sem hefur starfað í tíu ár hjá félaginu. Hann hóf störf á því herrans ári 2008 sem oft hefur verið kennt við hrun.
„Þetta byrjaði mjög leiðinlega. Ég byrjaði í janúar 2008 og þá var kominn nasaþefur af hruni sem skall á í október. Félagið var ekki nægilega sterkt til að takast á við það sem gerðist þá. Langsterkasti hlutinn var starfsfólkið og reynslan innan félagsins. Fólk sem hafði kynnst meðbyr og mótbyr reyndist mjög vel á þessum tíma. Þetta var ekki skemmtileg byrjun en mikil áskorun sem fer í reynslubankann.“
Viðtalið í heild má sjá hér að neðan.