Kosning í prófkjörum Pírata fyrir komandi Alþingiskosningar er hafin en framboðsfresturinn rann út kl. 15:00 í öllum kjördæmum. Kosning hófst í kjölfarið á vefsíðu Pírata. Kosningin mun standa yfir í viku.
„Píratar eru eini flokkurinn gerir félögum sínum kleift að hafa áhrif á framboðslista með þátttöku í prófkjöri í ár. Við erum framsækin lýðræðishreyfing og félagsmenn okkar fá alltaf að ákveða hverjir standa í stafninum,“ segir í fréttatilkynningu frá Pírötum.
Erla Hlynsdóttir framkvæmdastjóri Pírata segir í samtali við Vísi að enginn frambjóðandi hafi mótmælt þessu fyrirkomulagi, frekar furðað sig á því að hinir flokkarnir hafi ekki farið í þetta fyrirkomulag fyrst Píratar hafi getað það. Aðildarfélög Pírata ráða formi kosninga. Reykjavíkurkjördæmin verða með sameiginlegt framboð.
Í Reykjavíkurkjördæmunum, Suðvesturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi verður opið prófkjör þar sem allir skráðir Píratar á landsvísu geta kosið. Í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi verður lokað prófkjör þar sem aðeins þeir skráðu Píratar sem hafa atkvæðisrétt í hvoru kjördæmi fyrir sig hafa atkvæðisrétt.
