Þessi kapphlaupsratleikur hefur notið mikilla vinsælda allt frá því að fyrsti þátturinn var frumsýndur árið 2001. 11 tveggja manna lið ferðast um heiminn og leysa þrautir í fjarlægum löndum, það fyrsta til að skila sér svo í mark eftir flakkið hlýtur vegleg peningaverðlaun.
Í þessari nýjustu þáttaröð virðast liðin þurfa að brasa ýmislegt á Íslandi ef marka má aðdáendur þáttanna. Hafa þeir verið duglegir við að birta myndir af svaðilförum liðanna, sem voru hér á landi í upphafi vikunnar.
Hér að neðan má sjá fyrstu vísbendinguna sem liðin fengu í hendurnar. Þar er þeim sagt að koma sér til Íslands, nánar tiltekið að Geitárgljúfri.

Keppendur í The Amazing Race hafa áður verið sendir til Íslands, nánar tiltekið í sjöttu þáttaröð sem sýnd var á Stöð 2 á árunum 2004 til 2005. Það að Íslandi hafi brugðið fyrir í þátttunum var sögð vera „ein mesta landkynning sögunnar.“ - hvorki meira né minna.
Ekki er búið að gefa út hvenær nákvæmlega þrítugasta þáttaröðin verður frumsýnd en gert er ráð fyrir því að það verði í lok þessa árs eða upphafi árs 2018.
Fleiri myndir af ævintýrum keppendanna má nálgast á spjallborði aðdáendanna, með því að smella hér..
Eins og sést á myndbandinu hér fyrir neðan var mikill hamagangur í öskjunni þegar keppendur mættu á Leifsstöð.