Mannúðarsamtök sem aðstoða flóttamenn í Bangladess lýstu því yfir í gær að þörf væri á um 47 milljörðum króna á næstu sex mánuðum til þess að veita 1,2 milljónum manna lífsnauðsynlega hjálp. Stærstur hluti flóttamannanna eru börn.
Af þessum 1,2 milljónum er bróðurparturinn Rohingjar sem flúið hafa ofsóknir í Rakhine-héraði nágrannaríkisins Mjanmar. Alls eru meira en 800.000 Rohingjar komnir til Bangladess, þar af rúm hálf milljón síðan í lok ágúst. Til viðbótar við Rohingjana bætist svo það heimafólk sem aðstoðar flóttamennina og heldur úti flóttamannabúðunum.
„Rohingjar nærri Cox Bazar-borg eru í afar viðkvæmri stöðu, flestir hafa þeir orðið fyrir miklum og alvarlegum áföllum, og þeir búa nú við gríðarlega erfiðar aðstæður,“ sagði Robert Watkins, starfsmaður Sameinuðu þjóðanna í Bangladess, í yfirlýsingu í gær.
Þessi mikli fólksflótti sem hófst í lok ágúst orsakast af ofbeldi í Rakhine-héraði. Í kjölfar árásar skæruliða af þjóðflokki Rohingja á herstöð beitti herinn valdi gegn almennum borgurum af þjóðflokknum.
Mannréttindastjóri SÞ hefur greint frá því að herinn taki Rohingja af lífi án dóms og laga og brenni bæi þeirra til grunna. Hann hefur jafnframt gengið svo langt að tala um þjóðernishreinsanir í þessu samhengi.
Því hafa yfirvöld í Mjanmar hins vegar neitað og segjast eingöngu vera að berjast við liðsmenn frelsishers Rohingja (ARSA).

