Icelandair byrjaði í morgun að bjóða viðskiptavinum sínum upp á nýjan valkost sem kallast Economy Light. Á sama tíma fá tvær af sígildum vörum Icelandair ný nöfn: Economy Class verður Economy Standard og Economy Class Flex verður Economy Flex.
Economy Light gerir viðskiptavinum kleift að ferðast á lægra verði án þess að innritaður farangur sé innifalinn í verðinu, að því er segir í tilkynningu frá Icelandair. Þeir sem munu bóka Economy Light njóta sömu þjónustu um borð og aðrir farþegar og þá er 10 kg handfarangur innifalinn.
„Við erum að gera ýmsar breytingar á þjónustu okkar og þeirra á meðal er þessi nýi valkostur. Hann hentar mjög vel fyrir þá sem eru á leið í stutta helgarferð eða viðskiptaferð þar sem ekki þarf mikinn farangur. Þeir farþegar munu eftir sem áður njóta góðs af þjónustu Icelandair – með afþreyingarkerfi, óáfengum drykkjum í boði hússins og þægilegu sætaplássi“, er haft eftir Guðmundi Óskarssyni, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Icelandair í tilkynningu.
Hann segir að Icelandair sé að auka breiddina í vöruframboði og koma til móts við mismunandi óskir markaðsins. Þó gerir fyrirtækið ráð fyrir að Economy Standard, þar sem innritaður farangur er innifalinn, verði áfram vinsælasta vara fyrirtækisins.
