Tveir leikir fóru fram í Olís-deild kvenna í kvöld. Stjarnan og Valur nældu í góð stig.
Grótta og Stjarnan hafa marga hildina háð á síðustu árum en að þessu sinni var komið að Stjörnukonum að vinna. Þær höfðu nokkra yfirburði og unnu með tíu marka mun, 25-35.
Stjarnan hefur ekki byrjað leiktíðina nægilega vel og þessi sigur léttir aðeins pressunni á liðinu. Þórhildur Gunnarsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna í kvöld.
Valur vann svo stóran sigur á Fjölni, 36-14, í Valsheimilinu. Valskonur komið mörgum á óvart með mjög öflugri byrjun á tímabilinu.
Valur er á toppi deildarinnar eftir sigurinn með 9 stig en Stjarnan er í fimmta sæti með 5 stig. Grótta og Fjölnir verma neðstu sæti deildarinnar.
Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir skoraði níu mörk fyrir Val í kvöld en Ólöf Ásta Arnþórsdóttir var atkvæðamest í liði Fjölnis með fjögur mörk.
