Skoðun

Lausir kjarasamningar BHM – skýr krafa um afturvirkni

Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar
Sautján aðildarfélög BHM hafa verið með lausa samninga við ríkið frá 1. sept. sl. eða frá því að úrskurður gerðardóms, sem settur var í kjölfar lagasetningar á lögmætar verkfallsaðgerðir, féll úr gildi. Um er að ræða 6.000 starfsmenn á 200 ríkisstofnunum. Hvert félaganna sautján fer með samningsréttinn fyrir hönd félagsmanna sinna.

Það eru um margt óvenjulegar aðstæður uppi í stjórnarráðinu. Ríkisstjórnin er fallin tæpu ári eftir kosningar og boðað hefur verið að nýju til alþingiskosninga. Í þessu róti er mikilvægt að missa ekki sjónar á því mikilvæga verkefni að ná kjarasamningum við BHM-félögin. Af okkar hálfu er skýrt að samningur tekur við af samningi, þ.e.a.s. nýir kjarasamningar þurfa að gilda frá 1. september 2017. Fyrir afturvirkni eru fjölmörg fordæmi og varla þarf að eyða orku samningafólks í að þrasa um sjálfsagða hluti. Það er nóg annað um að ræða við samningaborðið.

Samninganefndir BHM hafa ítrekað bent ríkinu á þann vanda sem skapast þegar launasetning stétta er ólík á milli stofnana, auk þess sem fyrir liggur hvaða ríkisstofnanir eru krónískar láglaunastofnanir og hverjar ekki. Stofnanasamningakerfið stendur víða á brauðfótum. Nýtt lífeyriskerfi opinberra starfsmanna kallar á leiðréttingu launa á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins og enn er krafan um að menntun skuli metin til launa jafn brýn og áður.

Ríkið er stærsti vinnuveitandi landsins en ber einnig ásamt sveitarfélögunum ábyrgð á almannaþjónustu við alla landsmenn á sviði heilbrigðis- og menntamála. Það heldur úti stjórnsýslu og réttarvörslukerfi og ber ábyrgð á uppbyggingu innviða hvort heldur er samgöngum eða sjúkrahúsbyggingum. Það er afar mikilvægt að stjórnvöld hafi vilja og getu til að aðgreina þetta tvíþætta hlutverk hins opinbera sem framkvæmdarvald annars vegar og vinnuveitandi hins vegar í kjaraviðræðum vetrarins.

Höfundur er formaður BHM.




Skoðun

Sjá meira


×