Viðskipti innlent

Logi segir skilið við 365

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Logi Bergmann hóf störf hjá Stöð 2 árið 2005.
Logi Bergmann hóf störf hjá Stöð 2 árið 2005.
Fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann Eiðsson, sem hefur um árabil lesið fréttir og stýrt sjónvarps- og útvarpsþáttum hjá 365 Miðlum, hefur náð samningum við útvarpsstöðina K100.

Fram kemur í Morgunblaðinu, sem er í eigu Árvakurs rétt eins og K100, að Logi verði í dagskrárgerð á stöðinni ásamt því að starfa á ristjórn blaðsins.

Þá sé jafnframt í undirbúningi framleiðsla á innlendu sjónvarpsefni og dagskrárgerð með Loga. Hann hefur áður unnið á Morgunblaðinu, hóf þar störf árið 1988 áður en hann söðlaði um og flutti fréttir af íþróttum hjá Ríkisútvarpinu.

Logi segist kveðja samstarfsmenn sína hjá 365 með söknuði en að þetta sé „fínn tími“ fyrir sig að prófa eitthvað nýtt.

Jóhanna Margrét Gísladóttir, dagskrárstjóri Stöðvar 2, segir það „ekkert nýtt að aðrir fjölmiðlar ráði starfsfólk frá okkur til starfa. Hins vegar er ljóst að Logi er með skriflegan tólf mánaða uppsagnarfrest og að auki 12 mánaða samkeppnisákvæði sem hann þarf að sjálfsögðu að virða.“

Það stangast á við það sem fram kemur í frétt Morgunblaðsins, þar segir að ráðning Loga taki strax gildi og að hann hafi þegar hafið störf fyrir fyrirtækið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×