Eins og staðan er núna er til dæmis komin upp sú staða að Sjálfstæðisflokkurinn gæti myndað 32 manna ríkisstjórn með Framsókn, Viðreisn og Flokki fólksins.
Margir möguleikar í stöðunni
„Það eru mjög margir möguleikar í stöðunni. Þetta er mjög flókið og verður gríðarlega erfitt að mynda ríkisstjórn.“

„Samsteypustjórn sem er stærri heldur en þarf til að ná þingmeirihluta og fara þannig hina svokölluðu finnsku leið. Þannig að einn flokkur geti hlaupist undan merkjum en ríkisstjórnin standi samt eftir. Ég er ekki viss um að íslensk stjórnmál séu tilbúin að vinna með aðferðum sem þarf að nota til að minnihlutastjórnir gangi til lengri tíma litið. Það væri þá frekar að menn gætu farið í einhverja stærri samsteypustjórn.“
Hann segir að að slík stjórn gæti talið um sex flokka sem væri hægt að mynda út frá mið-hægri og mið-vinstri.
Staða Sjálfstæðisflokksins sterk
Sjálfstæðisflokkurinn er í afar sterkri stöðu að sögn Baldurs í ljósi þess að hann er stærsti flokkurinn á þingi en það þurfi ekki endilega að þýða að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fái stjórnarmyndunarumboðið.
Ef að myndast meirihluta stuðningur á meðal flokkanna um að tiltekinn formaður fái stjórnarmyndunarumboðið þá fái hann það.
„Það eru í rauninni flokkarnir sem geta komið sér saman um að einhver eigi að fá fyrstu tilraun til að mynda ríkisstjórn. Ef það tekst ekki ákveður forsetinn það og veitir þeim formanni sem skipar stærsta flokkinn umboðið eða þeim formanni sem hann telur líklegastan til að mynda ríkisstjórn.“