Framsóknarflokkurinn mælist með 9,6 prósent fylgi í nýrri könnun Zenter rannsókna sem gerð var dagana 23. til 27. október. Er það um þremur prósentum meira fylgi en flokkurinn mældist með í könnun Fréttablaðsins í gær og um prósenti meira fylgi en Framsókn mældist með í könnun Félagsvísindastofnunar í Morgunblaðinu í morgun.
Fylgi annarra flokka í könnun Zenter rannsókna er svo á nokkuð svipuðu róli og í öðrum könnunum undanfarna daga. Þannig mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 22,5 prósent og Vingstri græn með 19,6 prósent en ekki er marktækur munur á milli flokkanna.
Samfylkingin mælist með 14,7 prósent fylgi og Miðflokkurinn með 10,2 prósent. Framsóknarflokkurinn og Píratar mælast svo báðir með 9,6 prósent. Viðreisn mælist með 7,1 prósent, Flokkur fólksins með 4,3 prósent og Björt framtíð með 1,9 prósent. Alþýðufylkingin mælist síðan með 0,4 prósent og Dögun með 0,3 prósent.

