Samkvæmt könnuninni er Lilja allnokkru frá því að halda sæti sínu á þingi. Hún segir þó flokkinn eiga mikið inni. „Ég er í baráttuhug og vongóð. Á kjördag fyrir ári vorum við að mælast með fjögur prósent í Reykjavík suður en við enduðum með yfir sjö prósent og ég var inni. Nú er maður bara á fullu og heldur áfram að kynna málefnin,“ segir Lilja.

Öfugt við Framsóknarflokkinn stefnir í að Viðreisn nái ekki inn mönnum í landsbyggðarkjördæmunum þremur. Myndu Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður, og Jóna Sólveig Elínardóttir varaformaður því missa sæti sín. Hins vegar myndu allir þingmenn flokksins í höfuðborgarsvæðiskjördæmunum halda sætum sínum samkvæmt könnuninni.
Athygli vekur að þótt Flokkur fólksins mælist úti á landsvísu, undir fimm prósenta þröskuldinum og því án möguleika á jöfnunarþingmanni, vantar bara örfá atkvæði til þess að oddviti hans í Suðurkjördæmi, Karl Gauti Hjaltason, nái inn. Samkvæmt útreikningum Fréttablaðsins sem byggjast á könnuninni vantar einungis 23 atkvæði þar upp á og er því sannarlega mjótt á munum.
Svo gæti einnig farið að Rúnar Gíslason, frambjóðandi Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, setji Íslandsmet og verði yngsti kjörni þingmaður lýðveldissögunnar. Rúnar er fæddur árið 1996 en hann mælist inni með einungis einu atkvæði meira en Teitur Björn Einarsson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins.