Saga Lindu var sögð á sunnudag og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Varla var þurr þráður á þeim sem horfðu, táraflóðið hreinlega flæddi að skjánum þegar Linda og Richard Guildford, blóðfaðir hennar, voru sameinuð. „Mamma kom vestur til að horfa á þáttinn með okkur. Við sátum saman og þetta var eins og um jólin. Það grétu allir og ég get ekki byrjað að lýsa hamingjunni. Það er ekki hægt.“
Þátturinn var tekinn upp í júní og hefur Linda þurft að halda þessu stóra leyndarmáli fyrir sig og sína nánustu. „Ég mátti ekki segja neitt við neinn. Níu ára dóttir mín hélt þessu fyrir sig,“ segir hún en Linda og Ari, eiginmaður hennar, eiga alls fimm börn. Hún sagði þeim börnum frá sem höfðu vit til.

Sigrún Ósk Kristjánsdóttir er umsjónarmaður þáttanna og tilkynnti hún Lindu undir lokin að þau hefðu fundið föður hennar. Þá brustu allar varnir og tilfinningaflóðið tók yfir og þjóðin grét með í einu eftirminnilegasta sjónvarpsatriði Íslandssögunnar.
„Ég reyndi í öllu þessu ferli að vera klettur, fyrir sjálfan mig. Þó svo að allt blési á móti hélt maður í jákvæðnina. Svo þegar Sigrún sagði mér: Á ég að segja þér svolítið – missti ég allar varnir.

Viðbrögðin á Ísafirði og frá þjóðinni sem horfði á hafa ekki látið á sér standa. „Ég fór með börnin í leikskólann og þar stukku allir á mig og knúsuðu. Sögðust hafa grátið yfir þættinum og óskuðu mér til hamingju. Ég var í ræktinni og þar kom stelpa til mín og varð að stoppa mig og spjalla smá. Ég er bara ógeðslega ánægð að geta talað um þetta. Síminn minn hefur ekki stoppað frá því þátturinn var sýndur,“ segir hún kát.
Linda segist kunna betur við sig utan sviðsljóssins en þakkar fyrir að hafa tekið þátt í þættinum.
„Ég er hlédræg og ekki mikið að ota mér fram. Ég er alveg eins og Richard í þeim málum. Þeim sem þekkja mig hefur ábyggilega fundist erfitt að sjá mig gráta í sjónvarpinu. Lífið hefur ekkert verið auðvelt, og erfitt oft á tíðum, en áfram heldur maður að brosa og horfa fram á við. Það er það eina sem er hægt. Ég fór út með það að markmiði að það væri allt í lagi þótt við fyndum hann ekki. Og þegar ég var að fara í lokaviðtalið var ég nánast búin að sætta mig við að þetta hefði ekki gengið. En svo sagði Sigrún: Á ég að segja þér?…“ segir hún en bætir við: „Ég er líka svo ánægð að karakterinn minn skein í gegnum þættina. Það var hægt að brosa að mér,“ segir hún með bros á vör.