Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Óskari Einarssyni vegna skýrslu rannsóknarnefndar Landspítalans og Háskóla Íslands um plastbarkamálið svokallaða. Skýrsla nefndarinnar kom út í dag.
Óskar annaðist meðferð og eftirlit með Erítreumanninum Andemariam Beyene sem fór í plastbarkaígræðslu á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi í júní 2011.
„Mér var þá falið að sinna læknismeðferð sjúklings við innlögn á lungnadeild LSH. Ég kom hvergi að þeirri ákvörðun en sá enga ástæðu til þess að víkjast undan þeim starfsskyldum,” segir Óskar í yfirlýsingu sinni.
Óskar segir einnig að hann hafi ekki komið að þeirri ákvörðun að leitað var til Karólínska sjúkrahússins um annað álit á meðferðarúrræðum fyrir Beyene.
Beyene lést árið 2014 en meðferðin skilaði aldrei árangri.
Engar forsendur til að efast um heilindi Macchiarini
Óskar, ásamt Tómasi Guðbjartssyni, var titlaður sem meðhöfundur á grein ítalska læknisins Paolo Macchiarini um barkaígræðslur sem birtist í læknaritinu Lancet en hann segist harma að hafa ekki borið gæfu til að neita að gerast meðhöfundur greinarinnar. Macchiarini beitti blekkingum um árangur plastbarkaígræðslunnar.„Á þessum tíma hafði ég engar forsendur til þess að efast um heilindi greinarhöfunda og annarra sem stóðu að aðgerðinni og því ekki kunnugt um þær vísitandi blekkingar og falsanir sem komið hafa í ljós,“ segir Óskar.
Í byrjun árs 2017 óskaði Óskar eftir því að vera fjarlægður sem meðhöfundur greinarinnar.
Hefur aldrei hitt, né rætt við Macchiarini
„Ég hef aldrei hit eða rætt við hinn umdeilda skurðlækni Macchiarini, né nokkurn úr hans rannsóknar/aðgerðarteymi annan en Tómas Guðbjartsson,” segir Óskar.Hann segir að því loknu að nú muni hann gefa sér tíma til að lesa skýrslu nefndarinnar og í framhaldinu ráðfæra sig við yfirmenn sína á Landspítalanum um efni hennar.