Yfirmönnum Old Vic leikhússins í London hafa borist tuttugu vitnisburðir vegna ósæmilegrar hegðunar af hálfu Kevin Spacey er hann starfaði sem listrænn stjórnandi leikhússins.
Spacey starfaði fyrir leikhúsið í ellefu ár en lögreglan í Bretlandi hefur þegar til rannsóknar ásakanir manns sem segir leikarann hafa brotið á sér í London árið 2008.
Þeir sem telja Spacey hafa brotið á sér á meðan hann starfaði fyrir leikhúsið segja að þeim hafi ekki fundist þeir geta greint frá hegðun Spacey á sínum tíma. Segja þeir einnig að Spacey hafi hagað sér án nægjanlegar ábyrgðar innan leikhússins.
Í yfirlýsingu frá leikhúsinu segir að það biðjist afsökunar á því að hafa ekki skapað umhverfi þar sem hægt væri að ræða um slíkar ásakanir að vild.
Þeir sem hafa gefið sig fram við leikhúsið bætast í stóran hóp einstaklinga sem sakað hafa Kevin Spacey um ósæmilega hegðun eða kynferðislega áreitni. Meðal annars hafa tveir aðrir karlmenn sagt að Spacey hafi brotið á þeim þegar þeir voru unglingar.
Átta einstaklingar hafa sakað Spacey um kynferðislega áreitni á tökustað þáttanna House of Cards þar sem Spacey lék aðalhlutverkið.
Ásakanir á hendur Spacey koma í kjölfar hneykslismála tengdum framleiðandanum Harvey Weinstein sem sakaður er um nauðgun og að hafa áreitt tugi kvenna kynferðislega.