Handbolti

Kári Kristján: Verður helvíti gæjalegur leikur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kári Kristján í leik gegn Fjölni.
Kári Kristján í leik gegn Fjölni. vísir/ernir
Kári Kristján Kristjánsson og félagar í ÍBV drógust gegn Fjölni í 16-liða úrslitum Coca Cola bikars karla í dag.



„Okkur líst bara vel á þetta. Þetta er útsláttarkeppni og það skiptir engu hverjum þú mætir,“ sagði Kári í samtali við Vísi eftir dráttinn í dag.

Kári segir að Eyjamenn ætli sér langt í bikarkeppninni í ár.

„Við ætlum rosalega langt í bikarnum. Auðvitað ætlum við í Höllina og lita hana hvíta og smá svarta,“ sagði Kári.

ÍBV mætir toppliði FH í stórleik 9. umferðar Olís-deildar karla í kvöld.

„Þetta verður flottur handboltaleikur. FH-ingarnir eru búnir að vera hrikalega beittir og flottir. Þeir líta vel út og eru með flotta menn í öllum stöðum. Ég held að þetta verði helvíti gæjalegur leikur,“ sagði Kári.

ÍBV situr í 4. sæti Olís-deildarinnar með 12 stig eftir átta leiki sem hafa allir verið á útivelli. Með sigri í kvöld fara Eyjamenn upp í 3. sætið og minnka forskot FH-inga á toppi deildarinnar niður í tvö stig.

Kári segir að leikurinn í Kaplakrika í kvöld sé prófraun á lið ÍBV.

„Það má alveg segja það. Við erum búnir að vera á fínu róli þótt allir búist við því að við vinnum alla leiki með einhverri óhemju. Við erum allavega búnir að skila punktum í hús og ætlum að taka tvo í kvöld,“ sagði Kári að endingu.

Leikur FH og ÍBV hefst klukkan 19:30 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×