Erlent

Grace Mugabe hefur flúið land

Atli Ísleifsson skrifar
Hermenn eru nú á götum höfuðborgarinnar Harare.
Hermenn eru nú á götum höfuðborgarinnar Harare. Vísir/AFP
Her Simbabve er nú með forsetann Robert Mugabe í stofufangelsi í höfuðborginni Harare. Frá þessu greinir Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku, sem ræddi við Mugabe í síma fyrr í dag.

Mikil spenna er nú í Simbabve eftir að Mugabe rak í byrjun mánaðar varaforsetann og bandamann sinn til margra ára, Emmerson Mnangagwa, úr embætti.

Talið er að hinn 93 ára Mugabe hafi með brottrekstri Mnangagwa reynt að greiða leið eiginkonu sinnar, hinnar 52 ára Grace Mugabe, þannig að hún gæti tekið við völdum í landinu síðar meir.

Sky News hefur eftir heimaldarmönnum að Grace Mugabe hafi flúið land og hafist nú við í Namibíu.

Hermenn eru nú á götum Harare eftir að herinn tók yfir ríkisfjölmiðil landsins og kvaðst vera að beina aðgerðum sínum að „glæpamönnum“.

Stjórnarflokkurinn Zanu PF tilkynnti á Twitter-síðu sinni fyrr í dag að „friðsamleg umskipti“ fari nú fram í landinu. Þá hafi Mnangagwa tekið við embætti forseta til bráðabirgða.

Mugabe hefur stýrt Simbabve frá árinu 1980, fyrst sem forsætisráðherra og síðar sem forseti.


Tengdar fréttir

Segja yfirtökuna ekki vera valdarán

Her Zimbabve segir að þrátt fyrir að hann hafi tekið yfir ríkisútvarp landsins sé ekki um valdaránstilraun að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×