Handbolti

Guðlaugur: Dómarar settir í mjög erfiða stöðu

Benedikt Grétarsson skrifar
Bóas Börkur Bóasson og Hörður Aðalsteinsson dæmdu leik Vals og Gróttu.
Bóas Börkur Bóasson og Hörður Aðalsteinsson dæmdu leik Vals og Gróttu. vísir/anton
Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfara Vals, viðurkenndi að Grótta hefði verðskuldað 33-35 sigur gegn Íslandsmeisturunum í kvöld. Guðlaugi fannst það líka furðuleg ákvörðun að setja Bóas Börk Bóasson og Hörð Aðalsteinsson sem dómara leiksins en þeir félagar fengu það óþvegið frá Kára Garðarssyni eftir tap Gróttu gegn Fjölni í 11. umferð.

„Þetta er mjög vandmeðfarið. Sú staða sem þetta dómarapar er sett í með því að setja þá á þennan leik er bara ekki fagleg að mínu mati. Ég lét vita af því fyrir leikinn að mér fyndist það ekki fagmennska að setja þetta par á þennan leik. Dómararnir voru að gera sitt besta í dag og voru að reyna að standa sig eins og leikmenn.“

„Mér finnst bara þeir vera settir í ofboðslega erfiða stöðu að koma og dæma eftir þau ummæli sem Kári lét falla eftir síðasta leik. Þetta er bara eitthvað sem þarf að ræða,“ sagði Guðlaugur.

Leikurinn var aldrei í höndum Valsmanna og þjálfarinn segir sína menn ekki hafa mætt tilbúna í verkefnið.

„Við áttum einfaldlega ekki góðan dag en Grótta hittir á góðan dag hjá sér. Við ræddum vel fyrir þennan leik að Grótta er með gott lið, vel mannaðir og með góða breidd. Þeir eru bara stórhættulegir.

Við erum með breiðan leikmannahóp og góðan æfingahóp. Það á bara að koma inn maður í manns stað í þessu, þó að við seúm að glíma við meiðsli. Við erum fyrst og fremst ósáttir hvernig við mætum inn í leikinn og bara við okkur sjálfa, að við séum ekki að berjast.

Það er eitt að tapa leiknum fyrir Gróttu, sem var bara betra liðið í dag. Við erum bara ósáttir að við mætum ekki og fórnum okkur og skiljum allt eftir á gólfinu. Íþróttir ganga bara út á að leggja sig 100% fram. Maður á aldrei að labba út af vellinum og hugsa „Ég gat gert betur“. Það bara má ekki,“ sagði ósáttur Guðlaugur.

Meiðslalisti Valsmanna lengdist enn frekar í kvöld en Magnús Óli Magnússon haltraði af velli í seinni hálfleik. Magnús sagði við blaðamann eftir leik að hann hefði snúið sig á ökkla en þjálfarinn hans var ekki viss hvað hefði gerst.

„Ég hef ekki náð að kíkja á hann almennilega. Hann var tæpur í nára fyrir leikinn en við verðum bara að taka stöðuna betur seinna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×