Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir - Víkingur 23-27 │ Fyrsti sigur Víkinga

Anton Ingi Leifsson skrifar
Birgir Már Birgisson var markahæstur hjá Víkingi.
Birgir Már Birgisson var markahæstur hjá Víkingi. Vísir/Eyþór
Víkingur vann sinn fyrsta sigur í Olís-deildinni þetta tímabilið þegar liðið vann gífurlega mikilvægan sigur á Fjölni í fallbaráttuslag í Dalshúsum í kvöld, 27-23. Fjölnir leiddi í hálfleik, 12-11.

Leikurinn fór rólega af stað og eftir ellefu mínútna leik var staðan einungis 3-3 eftir ellefu mínútna leik, en þá tóku Fjölnismenn örlítið við sér og náðu mest þriggja marka forskoti.

Víkingar voru þó alltaf skammt undan og fylgdu þeim fast á eftir. Einhvernveginn virtist meira vera að ganga upp hjá Fjölni og var það kannski sér í lagi markvarsla Ingvar Kristins sem skildi á milli og Fjölnismenn leiddu með einu marki í hálfleik, 12-11.

Í síðari hálfleik byrjuðu Víkingarnir að krafti og létu vel finna fyrir sér. Gæðin voru kannski á kostnað gæðana hjá báðum liðum og ljóst var að mikilvæg stig voru í báði í Dalshúsum í kvöld. Bæði lið voru að tapa boltanum oft á tíðum klaufalega og fara illa með góð færi.

Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka leiddu gestirnir með tveimur mörkum, 18-16, með tilkomu frábærar markvörslu Davíðs Svanssonar sem hrökk í gang á ögurstundu. Fjölnismenn voru ekki af baki dottnir og jöfnuðu metin. Staðan jöfn 19-19 þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Á lokakaflanum reyndust gestirnir úr Víkinni sterkari aðilinn og þeir stóðu uppi sem sigurvegarar að lokum, 27-23. Gífurlega mikilvægur og góður sigur Víkinga, en sigurinn var jafnframt þeirra fyrsti sigur í efstu deild þennan veturinn.

Afhverju vann Víkingur?

Virkilega góður varnarleikur, agaður sóknarleikur og góð markvarsla, sér í lagi í síðari hálfleik, er lykillinn að þessum mikilvæga sigri Víkinga. Víglundur Jarl stýrði leiknum af festu og sóknir Víkinga voru flestar langar, en árangursríkar. . Varnarleikurinn nokkuð góður nær allan leikinn og Davíð varði og varði sérstaklega síðasta stundarfjórðunginn. Það munaði um minna. Flott frammistaða hjá Víkingum sem áttu sigurinn skilið.

Hverjir stóðu upp úr?

Davíð Svansson varði frábærlega í marki Víkinga undir lokin, en hann varði vel á annan tug skota í marki Víkings. Birgir Már Birgisson fann sig vel í hægra horninu eftir dapra byrjun, en margir voru að leggja hönd á plóg í bæði varnar- og sóknarleik Víkings.

Í sóknarleik Fjölnis var það Kristján Örn sem var eini með lífsmarki, einu sinni sem oftar. Kristján Örn skoraði níu mörk, en næsti maður kom með fjögur. Ingvar varði vel í fyrri hálfleik, en svo lítið sem ekkert meir.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Fjölnis var skelfilegur. Liðinu gekk hræðilega að opna Víkingana og ógnin hjá þeim þremur sem spiluðu fyrir utan var sáralítil ef undan er skilinn Kristján Örn sem allir vita hversu megnugir er. Það þurfa fleiri að ógna og Fjölnir þarf að fá fleiri mörk úr fleiri stöðum heldur en bara níu mörk frá Kristjáni og lítið sem ekkert frá öðrum.

Hvað gerist næst?

Sigurinn gefur Víkingum væntanlega byr undir báða vængi, en liðin eru núna með jafn mörg stig í ellefta til tólfta sæti deildarinnar með fimm stig. Grótta er sæti ofar með sex stig eftir sigurinn á Val í kvöld. Fjölnir fær næst Selfoss í heimsókn, en Víkingur mætir Val í Víkinni.

Davíð: Ekki margir sem höfðu trú á okkur fyrir tímabilið

„Þetta var dálítið mikilvægt og sérstaklega í ljósi þess að Grótta vann Val að þá var þetta mjög mikilvægt,” sagði Davíð Svansson, markvörður Víkings, í samtali við Vísi.

„Ég veit það ekki. Við náðum að halda haus allan leikinn og sigum ekkert niður þegar þeir voru að reyna jafna. Þetta var jafn og spennandi leikur og héldum bara áfram. Við gáfumst ekki upp.”

Gunnar Gunnarsson, þjálfari Víkings, sagði í samtali við Vísi að hann hafi verið ánægður með stemninguna og kraftinn í liðinu. Davíð tók í sama streng.

„Það er sama og í Haukaleiknum; þar er barátta og gleði. Svo dettum við niður inn á milli og dettum stundum of auðveldlega niður. Í dag náðum við að halda því.”

Reynslumestu mennirnir í Víkings-liðinu, Ægir og Davíð, reyndust mikilvægir undir lokin og sigldu þessu nánast heim fyrir Víkinga.

„Eigum við ekki að segja að reynslan hafi skilað þessu í höfn?” sagði Davíð og glotti, en Víkingar þurfa þó að safna fleiri stigum en bara þessum tveimur.

„Þetta er ekkert grín. Fjölnir og Grótta eru ekkert léleg lið. Við þurfum að berjast og hamast alveg til síðasta blóðdropa ef við ætlum að vera með í þessari deild.”

„Það voru ekkert margir sem höfðu mikla trú á okkur fyrir tímabilið og sérstaklega bara núna í gær, en við þurfum alltaf að gefa allt sem við eigum,” sagði Davíð að lokum.

Arnar: Áttum skilið að tapa

„Við áttum skilið að tapa. Við vorum lélegir og þetta eru mikil vonbrigði,” sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis, í samtali við Vísi í leikslok.

„Allur leikurinn var slakur. Við mætum ekki til leiks og Ingvar heldur okkur inn í leiknum, en annars hefðum við verið fjórum til fimm mörkum undir í leiknum.”

„Við náum samt að komast yfir og klúðrum þeim sénsum. Við byrjum svo síðari hálfleikinn enn verr og erum svo komnir inn í þetta og farnir að stjórna leiknum, en þá tökum við ansi margar rangar ákvarðanir. Við áttum ekkert skilið.”

Heimamenn fóru með endalaust af dauðafærum og voru að kasta boltanum afar klaufalega frá sér.

„Mér fannst menn ekki tilbúnir í leikinn. Ég veit ekki hver skýringin er á því, en það hlýtur að skrifast á mig og hvernig við undirbúum liðið. Þetta voru mjög mikil vonbrigði.”

Hver einustu stig í botnbarátunni eru svo ansi dýr og Arnar tekur undir það að þarna séu tvö mikilvæg töpuð stig.

„Já, ekki spurning,” sagði Arnar hundfúll í leikslok.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira