Innlent

„Við karlar eigum að hlusta, skilja og breyta“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
#Metoo var til umræðu í borgarstjórn í dag.
#Metoo var til umræðu í borgarstjórn í dag. Vísir/Anton

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur segir að karlar eigi að vera hluti af þeirri breytingu sem kallað er eftir þegar konur stíga fram og segja sögur af áreitni og ofbeldi á vinnustað. 

Borgarstjórn samþykkti í dag tillögu um aðgerðaráætlun til að bregðast við áreitni innan starfsstöðva borgarinnar. 

„Heiða Björg Hilmsdóttir og fjöldi kvenna í stjórnmálum á heiður skilinn fyrir að stíga fram og rjúfa þögnina undir merkjum #ískuggavaldsins. Leik- og sviðslistakonur einnig fyrir #tjaldiðfellur og von er á að fleiri hópar kvenna muni stíga fram,“ segir Dagur á Facebook síðu sinni.

Hann segir að borgin þurfi einnig að gera sitt og bregðast við og geta stutt við starfsfólk þegar mál koma upp í starfsemi borgarinnar eða hjá starfsfólki hennar.

„Við verðum að tryggja öruggan vinnustað. Borgin ætlar að líka að bjóða fram reynslu og verkferla til að vinna úr málum gagnvart Borgarleikhúsinu, íþróttahreyfingunni og öðrum mikilvægum samstarfsaðilum borgarinnar,“ skrifar Dagur.

Karlar þurfi að vera hluti af breytingunni

„En síðast en ekki síst þufa karlar líka að gera sitt. Við karlar eigum að hlusta, skilja og breyta. Vera hluti af þeirri breytingu sem kallað er eftir.“

Mörg hundruð íslenskar konur úr ýmsum starfstéttum hafa stigið fram undanfarnar vikur og greint frá ofbeldi eða áreitni sem þær hafa orðið fyrir í starfi. Þar hafa frásagnir stjórnmálakvenna og kvenna í sviðslitum og kvikmyndaiðnaði vakið hvað mesta athygli.

Stjórnendur stærstu leikhúsanna hafa fundað vegna frásagna kvenna sem starfað hafa við leikhúsin og þá viðraði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi félagsmálaráðherra, einnig áhyggjur sínar af ástandinu þegar konur í sviðslistum stigu fram. Hann sagði að það yrði að rannsaka málið og bregðast við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×