Kolbrún Bergþórsdóttir hefur sagt upp störfum sem ritstjóri DV. Hún segist hætta í góðu en hún sé ósátt við skipulagsbreytingar sem kynntar voru á föstudag.
Fram kom á föstudaginn að Kristjón Kormákur Guðjónsson hefði verið ráðinn aðalritstjóri DV og DV.is. Kolbrún var áður ritstjóri DV ásamt Sigurvini Ólafssyni. Hún hefur verið ritstjóri DV í tæp þrjú ár eða frá því í desember 2014.
Fram kom á vef Eiríks Jónssonar á föstudaginn að breytingarnar hefðu komið flatt upp á hana. Hún væri hissa á þeim.
„Já, ég er búin að segja upp. Ég er ósátt við þessar skipulagsbreytingar en ítreka að ég hætti í góðu,“ segir Kolbrún í samtali við Vísi. Það sé hennar skoðun að fólk eigi að skilja við vinnustað sinn í góðu.
„Það hef ég alltaf gert.“
Sigurvin Ólafsson er enn titlaður ritstjóri DV á vef og í síðustu prentúgáfu. Hann vildi ekki tjá sig um stöðu mála þegar blaðamaður náði í hann.
Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar, segir að um sé að ræða skipulagsbreytingar með nýjum eigendum. Sigurður G. Guðjónsson keypti DV, Pressuna og fleiri miðla í september.
Aðspurður hvort Sigurvin væri ritstjóri hjá DV sagði Karl: „Hann er skráður það.“
Kolbrún segist ósátt en hættir í góðu

Tengdar fréttir

Kristjón ráðinn aðalritstjóri miðla Frjálsrar fjölmiðlunar
Þá hefur Björn Þórir Sigurðsson hefur verið ráðinn til Frjálsrar fjölmiðlunar.