Umfjöllun og viðtöl: Fram - Stjarnan 20-30 | Framarar eins og lömb leidd til slátrunar

Einar Sigurvinsson skrifar
vísir/stefán
Strax frá upphafi leiks voru Stjörnumenn sterkara liðið á vellinum og var staðan eftir níu mínútur 0-6 fyrir gestina.

Fyrsta mark heimamanna kom á 10. mínútu þegar Svanur Páll minnkaði muninn í 1-6 en taktinn fundu Framarar ekki við það. Stjörnumenn spiluðu frábæra vörn og fyrir aftan hana átti Sveinbjörn Pétursson stórleik. Þeir juku forskot sitt og eftir 19 mínútna leik voru Stjörnumenn búnir að skora 11 mörk áður en Fram náði að skora tvö mörk. Þegar flautað var til hálfleiks voru gestirnir með 13 marka forskot, 6-19.

Þrátt fyrir að vera með unnin leik í höndunum misstu Stjörnumenn aldrei dampinn og hleyptu Frömurum ekkert betur inn í leikinn en í fyrri hálfleik. Stjörnumenn voru öruggir í öllum sínum aðgerðum og endaði leikurinn með 10 marka sigri þeirra, 20-30. Sanngjarn sigur Stjörnunnar gegn slöku liði Fram.

Af hverju vann Stjarnan leikinn?

Framarar byrjuðu leikinn hræðilega og náði ekki með nokkru móti að komast í gegnum vörn Stjörnunnar. Eftir að Stjarnan komst í 0-6 var leikurinn aldrei í hættu. Þeir spiluðu örugga vörn og í hvert skipti sem Framarar náðu að finna leiðir í gegn um hana, var Sveinbjörn Pétursson klár í markinu.

Fyrir utan varnarleikinn og markvörsluna var sóknarleikur Stjörnunnar frábær, en þeir kláruðu nánast allar sínar með skotum sem enduðu í markinu.

Hverjir stóðu upp úr?

Sveinbjörn Pétursson átti stórleik í marki Stjörnunnar með yfir 20 bolta varða og 50 prósent markvörslu. Fjölmargar af vörslum Sveinbjörns voru úr dauðafærum og á hann því sennilega stærstan þátt í hversu fljótt Framarar misstu hausinn í leiknum.

Auk þess var Egill Magnússon frábær í sókn Stjörnunnar með níu mörk, en átta þeirra komu í fyrri hálfleik.

Hvað gekk illa?

Það gekk bókstaflega ekkert upp hjá Fram í kvöld. Sóknarleikurinn var skelfilegur en þeir náðu sárasjaldan að spila sig í gegn um vörn Stjörnunnar og í þau skipti sem það tókst var færið ekki klárað.

Viktor Gísli fann sig alls ekki í fyrri hálfleik markinu og varði aðeins þrjú skot, honum gekk betur í síðari hálfeik en þá var það orðið of seint. Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði aðeins eitt mark og sást greinilega hversu mikilvægur hann er fyrir liðið. Þetta eru menn sem Framarar eiga inni næstu leikjum og munu eflaust stíga upp.

Hvað gerist næst?

Næsta fimmtudag fara fram 16-liða úrslit Coca Cola bikarsins, þar sem Framarar eiga heimaleik gegn Aftureldingu.

Stjörnumenn fá aðeins lengri hvíld en þeirra næsti mótherji er sá sami og Framara. Sunnudaginn 17. desember á Stjarnan heimaleik gegn Aftureldingu Olís-deildinni.

Guðmundur Helgi: Næ í þriðja flokkinn ef þetta heldur svona áfram

„Einfaldlega til háborinnar skammar. Ég skammast mín fyrir mitt lið,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, sem var að vonum ósáttur eftir tíu marka tap sinna manna, 20-30, gegn Stjörnunni í kvöld.

„Þetta var hræðilegt í alla staði. Allt sem við höfðum unnið að í vikunni fór á fyrstu tíu mínútunum. Mínir menn þurfa bara gjörsamlega í taka sig saman í andlitinu, þetta er ekki boðlegt. Ég fer og næ bara í þriðja flokkinn ef þetta heldur svona áfram.“

Það gekk ekkert upp hjá Fram í kvöld. Sókn, vörn og markvarsla hefur sjaldan litið verr út á tímabilinu en í kvöld. Guðmundur vill einna helst meina að færanýtingin hafi orðið þeim að falli.

„Við gerum alla markmenn sem við mætum að einhverjum heimsmeisturum, hann er með 70 prósent markvörslu í fyrri hálfleik. Það er náttúrlega bara ótrúlegt. Við vorum að opna varnirnar og erum að gera hluti sem var búið að tala um, en svo vantar að klára dæmið. Það að koma boltanum í netið virðist bara vera ómögulegt hjá mínum mönnum núna. Það er skotæfing í næstu viku, það er klárt.“

Tapið í kvöld var fimmta tap Fram í röð í Olís-deildinni. Guðmundur telur þó ekki enn tilefni til að hafa miklar áhyggjur af stöðunni.

„Við erum alveg á jörðinni, þetta er allt í lagi. Áhyggjuefnið er að þetta er ekki Framliðið sem ég þekki. Áhyggjuefnið er að fá þessa menn til að hafa gaman af þessu og sýna smá vilja. Þetta er ekki í boði, það er áhyggjuefni,“ sagði svekktur Guðmundur Helgi  að lokum.

Einar Jónsson: Okkar bestu 30 mínútur í vetur

„Frábær leikur, sérstaklega fyrri hálfleikurinn. Það var nánast hægt að segja að þetta væri búið í hálfleik, þannig að við bara sigldum þessu heim og gerðum það vel. Þetta voru að minnsta kosti okkar bestu 30 mínútur í vetur ég held að það sé óhætt að segja það,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Stjörnunnar sem var að vonum sáttur eftir leik sinna manna í kvöld.

Stjarnan voru töluvert betra liðið í kvöld og gekk Fram ekkert að komast í gegnum vörn Stjörnunnar. Einar var að sérstaklega ánægður með varnarleikinn í kvöld.

„Við breyttum vörninni og fórum í vörn sem við höfum spilað undanfarin tvö ár, en ekkert á þessu tímabili. Þetta er fjórða eða fimmta varnarafbrigðið sem við erum að prufa og það virkaði vel í dag. Það lagði grunninn að þessu, vörn og markvarsla. Við höfum aðeins verið að ströggla með þessa þætti í vetur en sá þáttur var frábær í dag.“

Stjörnumenn mættu í síðari hálfleikinn með unnin leik í höndunum. Þrátt fyrir það segir Einar að ekki hafi verið erfitt fyrir hann að fá sína menn til að halda einbeitingunni.  

„Menn voru staðráðnir í því inni í klefa að bæta í. Auðvitað hefðum við alveg viljað gera betur í seinni hálfleik en eigum við ekki bara að horfa á það sem við gerðum vel. Við unnum hérna gott lið Fram með tíu mörkum. Ég held að það sé nú bara mjög jákvætt,“ sagði Einar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira