Ísraelskir ríkisborgarar, sem hugðust taka þátt í mótinu, fengu ekki vegabréfsáritanir. Yfirvöld í Sádi-Arabíu segja ekki hafa verið grundvöll fyrir útgáfu áritananna vegna þess að ríkin tvö hafi ekki átt í neinum stjórnmálalegum samskiptum. Ísraelsku skákmönnunum var því ekki hleypt inn í landið í tæka tíð fyrir mótið en talsmenn Ísraelsku skáksamtakanna segjast ætla að fara fram á skaðabætur vegna málsins.
Sjö ísraelskir keppendur missa því af mótinu en athygli vekur að leikmenn frá Katar og Íran fengu útgefnar vegabréfsáritanir á síðustu stundu. Bæði ríkin hafa átt í stormasömu sambandi við Sádi-Arabíu. Í sumar samþykktu nokkur Persaflóaríki, með Sádi-Arabíu, í broddi fylkingar, að beita Katar stjórnmála- og viðskiptahöftum vegna tengsla þess síðarnefnda við hryðjuverkahópa. Þá var þess enn fremur krafist að Katar slíti stjórnmálasambandi við Íran.
Höfuðslæða í Íran meira en nóg
Vegabréfsáritanir ísraelsku leikmannanna eru þó ekki það eina sem vakið hefur umtal í aðdraganda skáksmótsins. Hin 27 ára gamla skákkona Anna Muzychuk, sem hefur tvisvar hreppt heimsmeistararatitil, ætlar ekki að taka þátt í mótinu vegna strangra reglna um klæðaburð kvenna á almannafæri í Sádi-Arabíu.
„Að hætta lífi sínu til að klæðast abaya öllum stundum?? Allt er takmörkunum háð og höfuðslæða í Íran var meira en nóg,“ skrifaði Muzychuk í Facebook-færslu í vikunni og vísaði þar til heimsmeistarmótsins sem haldið var í Tehran, höfuðborg Írans, fyrr á þessu ári.

Verðlaunafé á aðalmótinu, sem kennt er við Salman bin Abdulaziz Al Saud, konung Sádi-Arabíu, er 750 þúsund Bandaríkjadalir eða rétt tæpar 80 milljónir íslenskra króna. Sigurvegari kvennamótsins, sem fer fram samhliða karlakeppninni, fær 250 þúsund dali í sinn hlut eða rúmar 26 milljónir íslenskra króna.
Skákmótið, sem er það fyrsta sinnar tegundar sem haldið er í Sádi-Arabíu, er talið liður í því að opna landamæri ríkisins enn frekar fyrir umheiminum.

