Á aðfangadag eru margir á ferðinni og nauðsynlegt að fylgjast vel með færð og aðstæðum á vegum.
Samkvæmt vef Vegagerðarinnar eru færð og aðstæður eftirfarandi nú í morgunsárið:
Hálkublettir eru á Reykjanesinu og á Hellisheiði en hálka í Þrengslum.
Á Suðvestur- og Suðurlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja. Þæfingsfærð er á vegum í Landeyjum.
Það er hálka eða hálkublettir og éljagangur á Vesturlandi og flughált í Þverárhlíð í Borgarfirði. Þungfært og éljagangur er á Fróðárheiði.
Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja og víða éljagangur eða skafrenningur. Þæfingsfærð og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði. Ófært er á Þröskuldum og verður ekki hægt að opna þar í dag. Þungfært og skafrenningur er á Klettsháls. Ófært er á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.
Það er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum á Norðurlandi og víða éljagangur. Þæfingsfærð er frá Hofsósi að Siglufirði en verið að moka. Ófært er um Fljótsheiði og Hófaskarði. Snjóþekja og éljagangur mjög víða á Norðausturlandi.
Þæfingsfærð og skafrenningur er á Möðrudalsöræfum. Hálka eða hálkublettir og snjókoma eru á Austurlandi en snjóþekja á allri suðurströndinni.
Þá vara Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vegfarendur við umferð hreindýra á Austur-og Suðausturlandi.

