Ályktun Bandaríkjamanna um hertar refsiaðgerðir gegn stjórnvöldum í Norður-Kóreu var samþykkt samhljóða í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í kvöld. Í henni er kveðið á um aðgerðir til að draga úr olíubirgðum landsins um allt að 90%.
Tilefni refsiaðgerðanna eru ítrekaðar eldflauga- og kjarnorkutilraunir stjórnvalda í Pjongjang. Í ályktuninni sem öryggisráðið samþykkti er kveðið á um að allir Norður-Kóreumenn sem vinna erlendis þurfi að snúa til síns heima innan tólf mánaða.
Fjöldi refsiaðgerða af hálfu Bandaríkjanna, Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna voru fyrir í gildi, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Kínverjar, helstu bandamenn Norður-Kóreumanna, greiddu atkvæði með ályktuninni. Þeir hafa neitunarvald í öryggisráðinu.
