Yfirvöld í Íran hafa ákveðið að leggja bann á enskukennslu í grunnskólum landsins. Ætla yfirvöld þannig að stemma stigu við neikvæðum áhrifum vestrænnar menningar á íranskt samfélag. Reuters greinir frá.
„Að kenna ensku sem hluta af kennsluskrá í ríkisreknum og einkareknum grunnskólum brýtur gegn lögum og reglum í landinu,“ sagði Mehdi Navid-Adham, menntamálaráðherra landsins, í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi.
Þá sagði hann að í grunnskólakerfinu væri lagður hornsteinn íranskrar menningar. Nefndi hann að enskutímar, sem ekki eru hluti formlegrar kennsluskrár, gætu líka verið bannaðir.
Enskukennsla byrjar að jafnaði í miðstigsskóla í Íran, fyrir nemendur á aldrinum tólf til fjórtán ára. Þrátt fyrir það hafa margir grunnskólar tekið upp á því að kenna ensku og þá læra fjölmörg börn í landinu ensku með einkakennslu utan skóla.
Stjórnmálaleiðtogar í Íran hafa ósjaldan varað við neikvæðum áhrifum vestrænnar menningar á íranskt samfélag. Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans, gagnrýndi það til dæmis harðlega á síðasta ári að dæmi væri um að enskukennsla væri að eiga sér stað í leikskólum landsins.
Íran bannar enskukennslu í grunnskólum landsins
Ingvar Þór Björnsson skrifar
