Yfirvöld í Nígeríu hyggjast koma á skipulögðum flugferðum til þess að ferja þúsundir nígerískra ríkisborgara frá Líbíu heim til Nígeríu. Reuters segir frá.
Flugferðunum verður haldið áfram þar til allir Nígeríumenn á líbískri grundu hafa snúið heim, að frátöldum þeim sem vilja heldur dveljast áfram í Líbíu.
Mikið af Nígeríumönnum fara til Líbíu í því skyni að halda áfram sjóleiðina til Ítalíu. Í júlí á síðasta ári herti landhelgisgæslan þar í landi aðgerðir sínar og hóf í aukum mæli að hindra för fólks sem hugðist flýja yfir hafið. Í kjölfarið urðu þúsundir Nígeríumanna strandarglópar í Líbíu og er talið að hluti þeirra hljóti þar ómannúðlega meðferð, á borð við misþyrmingar og nauðungarvinnu.
Sjá einnig: Flóttamenn seldir í þrældóm á uppboði í Líbíu
Alþjóðleg samtök um fólksflutninga (IMO) hafa á undanförnum mánuðum unnið að því að koma á laggirnar verkefni sem á að stuðla að því að koma fólki frá ýmsum löndum, sem á það sameiginlegt að vera strandarglópar fjarri heimahögunum, heim á ný.
„Helsta takmarkið, sem við einblínum mjög svo á, er að koma þessum nígerísku ríkisborgurum heim eins fljótt og auðið er,“ sagði Geoffrey Onyema utanríkisráðherra Nígeríu á blaðamannafundi í Trípólí.
Á blaðamannafundinum sagðist Onyema vonast til þess að geta flutt 5500 Nígeríumenn aftur heim en þó væri ýmislegt sem stæði því í vegi.
Til að mynda teldi hann að aðgengi margra Nígeríumanna að flugferðunum væri ekki endilega gott. Þá nefndi hann einnig að glæpagengi sem bendluð eru við smygl á fólki og mansal hefðu hagsmuni af því að halda Nígeríumönnum í Líbíu.
