Sport

Hætt að synda erlendis en fer samt fyrir hönd Íslands til Buenos Aires

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir.
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir. Mynd/Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands
Ísland mun eiga fulltrúa í hópi ungra áhrifavalda á Ólympíuleikum ungmenna sem fara fram í október í ár. Ísland er ein af 120 löndum sem fá að tilnefna slíkan aðila.

Fulltrúi Íslands í ár verður sundkonan  Ingibjörg Kristín Jónsdóttir sem á dögunum tilkynnti það ásamt Hrafnhildur Lúthersdóttur, kollega sínum úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, að hún væri hætt keppni á stórmótum erlendis.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands segir frá þessu á heimasíðu sinni í dag.

Ingibjörg Kristín er margreynd keppniskona í sundi og á meðal annars ríkjandi Íslandsmet í 50 metra baksundi. Ingibjörg Kristín hefur keppt á fjölmörgum stórmótum, meðal annars keppti hún á fyrstu Ólympíuleikum Ungmenna sem fram fóru í Singapore árið 2010.

Ungu áhrifavaldarnir þurfa að vera á aldrinum 18 til 25 ára og þeirra hlutverk á leikunum verður m.a. að halda utan um fræðslu og félagslega þætti í kringum keppendur.

Eiga þeir að miðla af reynslu sinni og skila jákvæðum áhrifum áfram til næstu kynslóðar íþróttamanna. Ungu áhrifavaldarnir tilheyra þátttakendahóp síns lands og búa í Ólympíuþorpinu. Þeir sem sinna hlutverkinu taka þátt í störfum fararstjórnar og aðstoða hópinn eftir föngum.

Ólympíuleikar ungmenna eru ætlaðir fyrir ungt afreksfólk í íþróttum á aldrinum 14 til 18 ára. Keppt er í mörgum greinum og skiptast leikarnir í sumarleika og vetrarleika eins og Ólympíuleikar fullorðinna.

Hugmyndina á Jacues Rogge forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar og var hún kynnt til sögunnar árið 2001. Árið 2007 var ákveðið að koma á fót Ólympíuleikum ungmenna og fóru fyrstu sumarleikarnir fram árið 2010 í Singapore og 2014 fóru sumarleikarnir fram í Nanjing í Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×