„Við fórum á koddann í gær svekktir en maður reyndi að skilja við þetta er maður vaknaði. Ég hef gert þetta nokkrum sinnum og það er ekkert nýtt í þessu. Það þarf bara að rífa sig í gang. Við vissum að þetta yrði erfitt í gær,“ segir Ásgeir Örn en hann hefur gaman af því að fara inn í úrslitaleik gegn Serbunum.
„Er við skoðuðum planið fyrir mótið þá var líklegast að þetta yrði mikilvægasti leikurinn í riðlinum fyrir okkur. Nú verðum við að gíra okkur í þetta, vera klárir og þá fer þetta vel.“
Leikurinn gegn Serbum er sá leikur sem talið var að Ísland ætti möguleika á að vinna og það er einfaldlega sett sú pressa á okkar lið að það vinni þennan leik.
„Þeir eru mjög óútreiknanlegir og með óhefðbundna leikmenn. Þeir spila óhefðbundinn varnarleik og skipta oft um vörn. Það getur því verið erfitt að undirbúa sig. Við verðum að fókusa á sjálfa okkur og ef við gerum okkar hluti almennilega þá vinnum við þennan leik,“ segir Asgeir en gangi það eftir fara strákarnir áfram í mótinu með tvö stig.
„Það er langskemmtilegast að fara í svona leiki. Þess vegna er maður í þessu. Það kemur ekki til greina að fara heim strax eins og í Póllandi fyrir tveim árum. Það var hundleiðinlegt.“