Hrafnhildur Lúthersdóttir er hætt keppni á stórmótum erlendis, eins og liðsfélagi hennar Ingibjörg Kristín Jónsdóttir. Þetta tilkynntu þær á þakkargjörðarhátið sem þær héldu í Ásvallalaug í dag. Fjarðarfréttir.is greindi frá þessu í dag.
Þær eiga báðar glæsta ferla að baki og hafa sett samtals 101 Íslandsmet og unnið 136 Íslandsmeistaratitla, samkvæmt Klaus Ohk, sundþjálfara stelpnanna.
Hrafnhildur er aðeins 26 ára, en hún varð í 2. sæti í kjöri á íþróttamanni ársins árið 2016. Þá náði hún sjötta sæti í 100 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Ríó. Hrafnhildur varð fyrsti Íslendingurinn til þess að vinna til verðlauna á stórmóti í 50 metra laug.
Ákvörðunin var tekin eftir Evrópumótið í Tékklandi, en þá var Hrafnhildur í lokaprófum í háksólanámi og Ingibjörg í mastersnámi.
Þær vildu þó ekki segja alveg skilið við sundið og ef Klaus hefði samband við þær og biði um að koma til æfinga í tvo mánuði og keppa á bikarmóti þá myndu þær ekki segja nei við því.
Hrafnhildur sagði í viðtali við mbl.is að árið 2014 hafi hún verið búin að ákvæða að hætta eftir Ólympíuleikana í Ríó, en þar sem henni gekk svo vel þar hafi hún harkað af sér eitt ár í viðbót. Nú sé hins vegar komið að því að taka kærkomið frí áður en hún snúi sér að því að komast inn í læknisfræði.
Hrafnhildur hætt að keppa á stórmótum

Tengdar fréttir

Hrafnhildur, Eygló Ósk og Ingibjörg Kristín einokuðu topplista ÍM50
Sundkonurnar Hrafnhildur Lúthersdóttir, Eygló Ósk Gústafsdóttir og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir náðu bestum árangri á Íslandsmeistaramótinu í 50 metra laug sem fór fram í Laugardalssundlauginni um helgina.

Hrafnhildur með nýtt Íslandsmet og sæti í undanúrslitum
Hrafnhildur Lúthersdóttir bætti Íslandsmetið sitt í 50 metra bringusundi þegar hún tryggði sér sæti í undanúrslitum á EM í 25 metra laug í Kaupmannahöfn.

Íslensk afrekssundkona: Er þetta ekki eitthvert djók?
Sundkonan Ingibjörg Kristín Jónsdóttir er allt annað en sátt með ákvörðun Sundsambands Íslands að bjóða stjórnarfólki Sundsambandsins á EM í Kaupmannahöfn á meðan landsliðsfólkið greiddi sambærilega upphæð fyrir að fara á Smáþjóðaleikana fyrr á þessu ári.