Evrópuþingið samþykkti í dag að kalla eftir því að yfirvöld Tyrklands felli neyðarlög landsins niður. Þau hafa verið í gildi frá því hluti hersins reyndi að fremja valdarán sumarið 2016. Þingmenn fordæmdu hundruð handtaka í Tyrklandi að undanförnu og sögðu þeim ætlað að þagga niður í allri gagnrýni á aðgerðir tyrkneska hersins í Afrin-héraði í Sýrlandi.
Sjá einnig: Fjöldi lækna handtekinn fyrir að gagnrýna aðgerðir Tyrklands í Sýrlandi
Þar að auki gagnrýndu þingmennirnir sífellt versnandi ástand varðandi frelsi, réttindi og réttarkerfi Tyrkja. Síðan neyðarlögin voru sett á hefur minnst 160 fjölmiðlum verið lokað í Tyrklandi. Þá hafa um 50 þúsund manns verið handteknir og minnst 140 þúsund manns hafa verið reknir úr opinberum störfum vegna ásakana um að hafa komið að valdaráninu. Af hinum reknu er að mestu um að ræða kennara, dómara og hermenn.
Þingmennirnir krefjast þess að allar fjárveitingar Evrópusambandsins til Tyrklands verði að fylgja þeim skilyrðum að yfirvöld Tyrklands bæti stöðu sína varðandi mannréttindi, lýðræði og réttarkerfis Tyrklands.
Samkvæmt frétt AFP segir Utanríkisráðuneyti Tyrklands að ályktunin sé marklaust plagg með innihaldslausum ásökunum. Eini tilgangur þingmannanna hafi verið að gagnrýna Tyrkland. Þá sagði ráðuneytið að neyðarlögin sé enn nauðsynleg til að „eyða að fullu ógnunum gegn tilveru Tyrklands og lýðræðis þjóðarinnar“.
Vill peninga
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, mun hitta forsvarsmenn ESB á fundi í Búlgaríu í næsta mánuði. Búist er við spennu á fundinum en samband Tyrklands og ESB hefur versnað verulega frá 2016.
Erdogan mun að öllum líkindum fara fram á fjárveitingar vegna sýrlenskra flóttamanna, bættu tollasamstarfi og að Tyrkir geti ferðast til Evrópu án vegabréfsáritana.
Samkvæmt frétt Reuters er líklegt að Tyrkir fá fjárveitingu og lítið annað. Að Tyrkir fái þrjá milljarða Evra til að borga fyrir skóla, læknaþjónustu og annað fyrir sýrlenska flóttamenn þar í landi.
Erindreki Tyrklands hjá ESB sagði að það myndi borga sig fyrir Evrópu að gefa Tyrkjum jákvæð merki. Tyrkir yrðu þannig líklegri til að grípa til umbóta. Því meira sem ESB einangraði Tyrkland því meira myndi ríkið snúa sér að þjóðernishyggju