Erlent

Sjö tyrkneskir hermenn féllu í átökum við Afrin

Atli Ísleifsson skrifar
Tyrkneski herinn segist beina spjótum sínum að YPG, uppreisnarsveitum Kúrda, sem tyrknesk yfirvöld skilgreina sem hryðjuverkasamtök.
Tyrkneski herinn segist beina spjótum sínum að YPG, uppreisnarsveitum Kúrda, sem tyrknesk yfirvöld skilgreina sem hryðjuverkasamtök. Vísir/afp
Sjö tyrkneskir hermenn féllu í Kúrdahéraðinu Afrin í norðvesturhluta Sýrlands í gær, en tyrkneskar hersveitir hafa sótt inn í héraðið síðustu daga. Ekki hafa fleiri tyrkneskir hermenn fallið á sama degi frá því að sóknin hófst.

Talsmaður tyrkneska hersins segir að fimm hermenn hafi fallið þegar ráðist var á einn skriðdreka hersins. Tyrklandsher hefur svarað árásinni með loftárásum á héraðið síðustu klukkustundirnar.

Tyrkneski herinn segist beina spjótum sínum að YPG, uppreisnarsveitum Kúrda, sem tyrknesk yfirvöld skilgreina sem hryðjuverkasamtök.

Ræddi við Macron

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti ræddi við franskan starfsbróður sinn, Emmanuel Macron, í síma í gær þar sem hann ítrekaði að sóknin beindist að hryðjuverkamönnum og sneri ekki að því að ná landsvæðum af Kúrdum.

Macron varaði Tyrki nýlega við því að þeir yrðu í miklum vanda staddir ef í ljós kæmi að um innrásaraðgerð væri að ræða. Í yfirlýsingu frá frönsku forsetahöllinni kemur fram að forsetarnir hefðu sammælst um að vinna saman næstu vikurnar að áætlun um hvernig megi leysa vandamálin í Sýrlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×