Bergur Jónsson fer fyrir liði Gangmyllunnar og er það áttunda og síðasta liðið sem við kynnum til leiks í meðfylgjandi myndbandi.
Bergur sigraði Meistaradeild Cintamani með minnsta mögulega mun í fyrra og réðust úrslitin á lokametrunum. Stólpagæðingurinn Katla frá Ketilsstöðum átti stóran þátt í velgengni Bergs, en hann mætir ekki með hana í ár.
„Staðan á mér persónulega er að hryssan sem var mitt aðalhross í fyrra er komin í folaldseign og er ekkert sjálfgefið að fylla upp í það skarð. Við sjáum hvað setur,“ segir Bergur íbyggin.
Hann segir að það sér mikill áhugi á Meistaradeildinni og stemningin fyrir fyrsta mót mikil.
„Skemmtilegast við þessa Meistaradeild er að þetta er stærsti viðburður Íslandshestaheimsins á hverju ári og meira fylgst með henni en jafnvel Landsmóti og Heimsmeistaramóti. Þetta er gríðarlega erfið keppni, enda þarna samankomnir flestir af bestu knöpum og hestum landsins, allir tjalda til því besta sem til er í það og það skiptið.“
Eins og fyrr segir er fyrsta keppnisgrein í Meistaradeild Cintamani fjórgangur og fer mótið fram í kvöld, 1. febrúar, í Samskipahöllinni í Kópavogi.
Keppnin er sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og unnt er að tryggja sér áskrift á 365.is/bestasaetid. Einnig er unnt að fylgjast með á netinu á oz.com/meistaradeildin.