Sport

Kvartaði yfir of háværum stunum

Caroline Wozniacki.
Caroline Wozniacki. vísir/getty
Besta tenniskona heims um þessar mundir, Caroline Wozniacki, var ekki ánægð með mótherja sinn í Katar í dag.

Wozniacki valtaði þá yfir hina rúmensku Monicu Niculescu, 7-5 og 6-1. Það dugði þó ekki til að kæta hina dönsku Wozniacki.

Hún stöðvaði leikinn til þess að kvarta við dómarann yfir stununum í rúmensku stelpunni. Sakaði hana um að stynja of hátt og á vitlausum stöðum. Hún sé þar með að reyna að trufla andstæðinginn.

„Ég bað dómarann að fylgjast með þessu því hún sló boltann og svo tveim sekúndum síðar, er ég þarf að slá, þá stynur hún og alls ekki alltaf eins,“ sagði Wozniacki.

„Þetta er truflandi og ekki leyfilegt. Ég vildi að dómarinn fylgdist með þessu og þar af leiðandi bregðast við. Þá hætti hún þessum fíflalátum.“

Niculescu gerði sér lítið fyrir og sló Mariu Sharapovu í fyrstu umferð mótsins. Hún var ekki hrifin af kvartinu í Wozniacki.

„Þetta var lélegt hjá henni. Ég hef aldrei heyrt af því að efsta kona heimslistans kvarti svona. Ég er svekkt út af þessu og mér finnst hún svolítið mikil dramadrottning.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×