Sport

Tjáði sig dólgslega um hina 17 ára Chloe Kim og missti útvarpsþáttinn sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chloe Kim með gullið sitt.
Chloe Kim með gullið sitt. Vísir/Getty
„Ég bið alla afsökunar á því að hafa verið algjört fífl,“ sagði útvarpsmaðurinn Patrick Connor í afsökunarbeiðni sinni á Twitter. Hann breytti því þó ekki að ummæli hans um hina sautján ára Chloe Kim kostuðu hann útvarpsþáttinn hans.

Patrick Connor stýrir ekki lengur morgunþættinum „The Shower Hour“ á KNBR útvarpsstöðinni í Bay Area.





Chloe Kim vann hug og hjörtu allra þegar hún vann Ólympíugull í snjóbrettafimi á þriðjudaginn. Hún vann með miklum yfirburðum og heillar svo alla með léttri og skemmtilegri framkomu sinni.

Það spillir ekki fyrir vinsældum Chloe Kim að hún er sæt og brosmild stelpa en sumir gengu alltof langt í að lýsa yfir hrifningu sinni á henni.

Patrick Connor datt nefnilega í perraskapinn í útvarpsþætti sínum. Hann er 23 árum eldri en Chloe Kim og kynferðisleg ummæli hans um nýjustu súperstjörnu íþróttaheimsins féllu í mjög grýttan jarðveg.





„Ég vil biðja Chloe Kim og föður hennar afsökunar. Þau áttu ekki skilið að fá þessar heimsku, asnalegu og barnalegu athugasemdir,“ sagði Patrick Connor en hann fór líka á Twitter.

„Í gær fór ég skrýtna leið að því að reyna að fá fólk til að hlæja. Athugasemdir mínar um Chloe Kim voru meira en óviðeigandi því þær voru aumar og ógeðslegar. Ég bið þig innilega afsökunar Chloe. Þú kemur svo stórkostlega fram fyrir hönd okkar þjóðar. Ég bið alla kollega mína og hlustendur afsökunar á því að vera algjört fífl,“ skrifaði Patrick Connor á Twitter.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×