Breiðablik rústaði ÍBV í A-deild Lengjubikars kvenna, en leikið var í Fífunni í kvöld. Lokatölur urðu 8-0 sigur Blika þar sem Agla María Albertsdóttir lék á alls oddi.
Guðrún Gyða Haralz skoraði fyrsta markið á sjöttu mínútu og Agla María gerði tvö mörk áður en að hálfleik kom, en Sólveig Jóhannesdóttir Larsen bætti við fjórða markinu.
Staðan var 4-0 í hálfleik og unglingalandsliðsstelpan Alexandra Jóhannsdóttir gerði fimmta markið á 47. mínútu. Agla María Albertsdóttir innsiglaði þrennuna á 63. mínútu.
Guðrún Gyða Haralz skoraði svo sjöunda mark Blika á 69. mínútu, en síðasta smiðshöggið í kistu Eyjastúlkna lagði svo títtnefnd Agla María með sínu fjórða marki. Lokatölur 8-0.
Þetta var annar leikur Blika og eru þær með sex stig á toppi riðilsins. Þetta var fyrsti leikur ÍBV í mótinu.
