Ísland er í öðru sæti yfir þau lönd þar sem öruggast er að fæða barn. Tíðni nýburadauða hér er eitt barn á hvert þúsund. Japan skákar Íslandi sem öruggasta landið. Þar deyr einn nýburi af hverjum 1.111. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF.
Hinum megin á listanum er Pakistan en þar deyr að meðaltali eitt barn af hverjum 22. Mið-Afríkulýðveldið, Afganistan, Sómalía, Lesótó, Gínea-Bissá og Suður-Súdan raða sér í næstu sæti.
„Tíðni nýburadauða er gífurlegt áhyggjuefni, einkum meðal fátækustu ríkja heims,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. „Í ljósi þess að meirihluti þessara dauðsfalla er fyrirbyggjanlegur þá er augljóslega verið að bregðast fátækustu börnunum og þeim sem búa á jaðri samfélaga.“
